Við hér í Hveratúni höfum eignast okkar eigin jólakött. Undanfarna daga höfum við tekið eftir litlum gráum kétti sem hefur verið að snuðra hér fyrir utan stofugluggann. Í fyrradag sáum við hann veiða mús með miklum og faglegum tilþrifum á grasfötinni við stéttina. Síðan hefur hann komið reglulega og vaktað blettinn í von um fleiri mýs. Húsfreyjan á heimilinu hefur ekkert viljað skipta sér af köttum hingað til. Þessi bræddi samt alveg á henni hjartað. "Mig langar að gefa litla ræflinum mjólkursopa" Já og það var farið með mjólk í dalli út á stétt og smá slátur líka.
Kötturinn sást ekki fyrr en hálfum sólarhring síðar. Við fylgdumst öll með því þegar hann naut matarins. Það voru teknar myndir úr launsátri til að styggja hann ekki.
Þessi síðasta er að vísu ekkert sérstök nema fyrir þær sakir að kötturinn tók hana sjálfur! Já hún er tekin á sjálfvirka myndavél sem ég keypti fyrir löngu síðan í einhverri tækjagleði.
Jæja, það þarf ekki mikið til að skemmta sér. Bara einn jólakött.
Bloggar | 29.12.2008 | 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég er enn að reyna að fatta þetta Facebook dæmi. Er jafnvel farinn að hallast að því að þetta sé svona meira fyrir unglingana. En það getur verið að ég hafi bara ekki næga reynslu og þroska fyrir þetta ennþá.
Smá dæmi úr doðrantinum:
Hjón til margra ára eru bæði á doðrantinum.
Ég fæ eftirfarandi tikynningu.
Jón og Gunna eru núna vinir!
Mikið finnst mér það nú gott. Ég vissi ekki einusinni að hjónin væru óvinir!
Skömmu síðar fæ ég tilkynningu:
Jón og Gunna eru núna gift.
Nú það þroskast hratt vinskapurinn hjá þeim. Hvernig var það annars voru þau ekki gift fyrir?
----------------------------
Nei annars, þetta er nú bara svona grín. Kannski kemst ég í takt við þetta þegar frá líður. Ef ekki þá er ekkert mál að eftirláta þetta unglingunum.
Bloggar | 23.12.2008 | 20:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Bloggar | 18.12.2008 | 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Það var ekki beint eftirsóknarvert að viðra hundana núna áðan. Hífandi rok og rigning, myrkur í þokkabót. Það verður samt að gera það. Hálkan er þvílík hér á götunum í hverfinu að það er stórhættulegt að fara eftir þeim. Þess vegna þá haltraði ég bara beint út á hverasvæði með ræflana. Það er að vísu versti staðurinn í hverfinu með tilliti til veðursins. Í suðaustan roki er ekkert skjól þar. En þetta slapp allt saman og við erum komnir aftur í hús.
Á bakaleiðinn tók ég eftir því að hundarnir voru komnir með kindalappir í kjaftinn. Undanfarna daga er ég búinn að taka af þeim 6 kindalappir. Hvaðan koma allar þessar kindalappir? Er kannski einhverstaðar ein og hálf kind lappalaus? Eða 6 kindur sem vantar eina löpp á hverja? Það er spurningin. Ég verð samt að draga þá skynsamlegu ályktun að einhver nágranna minna hafi sankað þessu að sér og þá vætnalega til að svíða þær að gömlum sveita sið og þá með það að markmiði að éta þær. Hundar hafa gott nef og þeir finna svona hnossgæti ef það er hægt að komast í það á annað borð.
Svo er hér að lokum mynd af unglingunum í tölvunum. Þetta er farið að ganga nokkuð langt. Þetta er auðvitað bilun!
Bloggar | 10.12.2008 | 18:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Bókunin frá Össuri komin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 7.12.2008 | 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fyrir nokkru keypti ég mér snjóskóflu á traktórinn í Jötunn vélum á Selfossi. Ég bað um að hún yrði send til mín með Flytjanda.
Skófla kom til mín en var að vísu send með Landflutningum (Samskip) en það skipti mig ekki máli.
Svo kom reikningur fyrir flutningnum uppá rúmar 6 þúsund krónur. Sem mér þótti svo sem allt í lagi. Ég greiddi reikninginn á eindaga eins og til er ætlast.
Daginn eftir barst mér bér frá Intrum Justitia þar sem kvartað var yfir því að reikningurinn hefði ekki verið greiddur. Nú bæri mér að greiða starx til að forðast frekari innheimtuaðgerðir.
Vitandi það að þetta skeyti var sent áður en ég greiddi reikninginn þá bjóst ég við að þetta væru einhver fljófærnismistök og ekki svaraverð því reikningurinn var jú greiddur.
Svo skeði það í gær að ég fékk bréf frá Intrum Justitia. Það hófst á þessum orðum:
NÚ ER MÁLIÐ ORÐIÐ ALVARLEGT. LOKAAÐVÖRUN!
Síðan fylgdi allskonar hótanir um lögfræðinga og frekari kostnað.
Þó að ég viti að þarna er um einhverkonar mistök að ræða þá varð ég alveg ösku vondur. Ég sem er einstakt ljúfmenni á það ekki oft til. Ég sendi Intrum harðort skeyti með tilheyrandi skömmum ásamt kvittun fyrir greiðslu á þessum reikningi. Auk þess hótaði ég að rukka Intrum fyrir alla þá vinnu og óþægindi sem þetta klúður þeirra væri að valda mér.
Ég er viss uma að Intrum Justitia og önnur fyrirtæki í þesari grein eru að maka krókinn þessa dagana. En það er algert lágmark að þessir hrægammar fullvissi sig um það áður en þeir sýna klærnar hvort það sé grundvöllur fyrir árásinni.
Bloggar | 3.12.2008 | 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Pétur læknir hringdi í mig í gær og las mér niðurstöðurnar úr myndatökunni í Domus Medica. Það er semsagt málið að hnéð er í allskonar fokki. Það er vökvi (blóð) í liðnum, tognað liðband, skaddaður og laus liðþófi ásámt tlheyrandi bólgu.
Ég hef svo sem engar forsendur til að meta hversu alvarlegt þetta er allt saman. Ég bara hef ekki vit á því. Það eina sem ég veit er að ég er skárri á hverjum morgni og ég reikna með að með því framhaldi endi ég á því að verða bara nokkuð góður. Pétur bannaði mér að taka þátt í frekara Káradæmi fram yfir áramót.
Ég lenti í því ásamt Knúti á Friðheimum að vera á vakt yfir bekknum hennar Marínar núna á föstudagskvöldið. Þannig er að allur bekkurinn (16 stykki) var að gista í skólanum yfir nótt. Einhverra hluta vegna þótti þeim þetta spennandi dæmi.
Þegar klukkan var að nálgast 3 um nóttina og hávaðinn, lætin og galsinn var óstjórnlegur þá varð mér að orði að það væri bara fínf þetta yrði aldrei leyft oftar. En uppúr kl. 4 um nóttina þá skall á kyrrð og ég fékk heila 3 og 1/2 tíma í svefn.(Að vísu svaf ég ekki vel en það er því að kenna að ég hafði svo lélega dýnu) Krakkarnir voru í raun og veru bara ágæt. Við Knútur vorum ekkert að skipta okkur of mikið af þeim enda skilst mér að þeim hafi líkað það bara vel.
Ég fór svo ásamt Sigurlaugu í stórafmæali Kristínar í gærkvöldi og það var alveg frábært. Ég var að vísu ekki í formi til að halda áfram langt fram efir nóttu vegna svefnleysins frá nóttinni á undan en það var samt gaman.
Hér að lokum vil ég sýna eitt videó sem ég fann á netinu. Það er bara gott og sniðug hugmynd í þessu ástandi sem er í gangi.
http://www.youtube.com/watch?v=wWPhTYsFTv8
Bloggar | 30.11.2008 | 23:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ég hef síðan í haust mætt tvisvar í viku út á Laugarvatn í leikfiimi, lyftingar og körfubolta mér til heilsubótar. Reyndar hef ég staðið í þessu undanfarna vetur líka. Ómar kallar þetta "Káradæmið" því að Kári Jónsson Lektor við Íþróttakennaraskólann (Ég held að vísu að það dæmi heiti núna Kennaraháskóli Íslands) heldur utan um þetta allt saman. Hann tekur þarna til líkamstamningar miðaldra karla úr Bláskógabyggð sem eru í allskonar ástandi og gerir það sem hann getur til að bæta heilsu þeirra og vaxtarlag. Það er ekki amalegt að vera með einn þann besta sem kostur er á til að þjálfa kroppinn. Formlega er þessi mannskapur kallaður "Heilsukarlar Kára"
Þetta hefur verið mjög góð og skemmtileg tilbreyting svona yfir veturinn og svo sannarlega bætt heilsuna. Við Ómar og Gunnar í Hrosshaga höfum verið samferða út á Laugarvatn á mánudags og fimmtudagskvöldum og mætingin núna í haust hefur verið með besta móti.
Síðastliðið mánudagskvöld fann ég fyrir einhverjum stirðleika í hægra hnénu þegar æfingin var að byrja. Ég ákvað að það væri bara vegna þess að það þyrfi að hita það aðeins upp. Ég tók því fullan þátt í skemmtilegum körfubolta eins og aðrir. Það gekk bara vel og ég gleymdi hnénu í hita leiksins. Ég var samt eitthvað aumur í því þegar leiknum lauk en pældi ekki mikið í því. Morguninn eftir var hnéð bara alveg í rúst. Ég var hreinlega með staurfót (Stekkjastaur)
Á öðrum degi ákvað ég að fara til læknis enda ekki mikið gagn í mér í þessu ástandi og því eins gott að gera það frekar en ekki neitt. Læknirinn skoðaði mig eftir bestu getu og gaf að lokum þann úrskurð að þetta væri trúega sprunginn liðþófi í hnénu. Hann vildi senda mig í einhverskonar sneiðmyndatöku.
Það varð semsagt úr að ég fór í myndatökuna í dag. Ég mætti um kl. 12 í Domus Medca í Reykjavíkurhreppi. Fyrir utan var ógæfumaður sem sagðist búa í tjaldi í Laugardalnum og nú væri hann gaslaus og var að safna sér fyrir áfyllinu á kútinn. Ég mátti ekki vera að neinu röfli við manninn og lét hann því hafa klinkið sem ég hafði í vasanum til að losna. Þegar inn var komið var ég settur í grænan slopp og látinn stinga löppinni inn í dularfullt tæki sem leit út eins og þvottavél. Þannig mátti ég dúsa í heilan klukkutíma og hafði þau fyrirmæli að ég mætti ekki hreyfa mig. Til allrar hamingju fékk ég heyrnartól á hausinn þar sem ég gat hlustað á útvarpið annars hefði þetta orðið ansi erfitt.
Eins og yfirleitt er með allt þá tók þetta enda að lokum. Mér var sagt að draga löppina út úr þvottavélinni og að klæða mig aftur. "Við sendum svo lækninum niðurstöðurnar" sagði stúlkan sem rak mig úr tækinu.
Og þannig stendur núna. Ég veit semsagt ekki hvað gengur að hnénu og bíð bara spenntur.
Bloggar | 27.11.2008 | 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sælt veri fólkið.
Það er svosem ekki mikið um að vera hérna um þessar mundir. Í tilefni af árstíðinni breytti ég um mynd hér í hausnum. Þetta er mynd sem var tekin í mikla snjónum síðastliðinn vetur. Nánar tiltekið af gamala gróðurhúsinu hans Einars Ólafs.
Við fórum með krakkana í messu í morgun. Eins og við höfum gert nokkra sunnudagsmorgna undanfarið. Það hefur að vísu ekki verið ótti við útmálun helvítis á sálartetrinu eins og kemur fram í vísu sem birtist á síðunni hans Palla, sem veldur þessari óvenjumiklu kirkjusókn hér á heimilinu. Heldur er verið að vinna í því að uppfylla ákveðinn messusóknarkvóta vegna væntanlegra fermingar barnanna. Þetta hafa verið ósköp notalegar stundir. Fámennt en góðmennt. Mér hefði þótt betra að hafa organista til að skreyta þetta aðeins. Það vantar svona fyllingu í dæmið. Það hlýtur að vera hægt að redda organista fyrir svona merkilega kirkju.
Ég lauk við að græja gæsirnar á föstudaginn. Óvenju efnilegur gæsalager í kistunni núna. Við tókum forskot á sæluna í gærkvöldi og fengum okkur gæs í kvöldmatinn. Hún þótti afskaplega góð. Pabbi fékk að sjálfsögðu líka að smakka og honum líkaði hún vel.
Ég ákvað að taka fjórhjólið aðeins til kostanna núna í kvöld. Vegna notkunarleysis þá var það rafmagnslaust þegar til áttu að taka. Það er ekki von á öðru þegar maður hreyfir það svona sjaldan. Jæja, en eftir hleðslu í smá stund þá rauk það í gang og ég gat sprett aðeins úr spori hér um nágrannið. Það er mjög skemmtilegt í svona hálku. Nú bíð ég eftir að það komi eitthvað af snó til að reyna það í sköflum.
Að lokum ætla ég að hætti sumra að hnoða hér saman einum fyrriparti.
Í messu ég fór og mjög var fátt
um mergjaðan undirleik
Bloggar | 23.11.2008 | 23:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Tenglar
Tenglar
Tenglar
Fjölskyldan
Ættingjar
Aðrir
Nóv. 2024 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
Lög
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar