Káradæmið

Ég hef síðan í haust mætt tvisvar í viku út á Laugarvatn í leikfiimi, lyftingar og körfubolta mér til heilsubótar. Reyndar hef ég staðið í þessu undanfarna vetur líka. Ómar kallar þetta "Káradæmið" því að Kári Jónsson Lektor við Íþróttakennaraskólann (Ég held að vísu að það dæmi heiti núna Kennaraháskóli Íslands) heldur utan um þetta allt saman. Hann tekur þarna til líkamstamningar miðaldra karla úr Bláskógabyggð sem eru í allskonar ástandi og gerir það sem hann getur til að bæta heilsu þeirra og vaxtarlag. Það er ekki amalegt að vera með einn þann besta sem kostur er á til að þjálfa kroppinn. Formlega er þessi mannskapur kallaður "Heilsukarlar Kára"

Þetta hefur verið mjög góð og skemmtileg tilbreyting svona yfir veturinn og svo sannarlega bætt heilsuna. Við Ómar og Gunnar í Hrosshaga höfum verið samferða út á Laugarvatn á mánudags og fimmtudagskvöldum og mætingin núna í haust hefur verið með besta móti.

Síðastliðið mánudagskvöld fann ég fyrir einhverjum stirðleika í hægra hnénu þegar æfingin var að byrja. Ég ákvað að það væri bara vegna þess að það þyrfi að hita það aðeins upp. Ég tók því fullan þátt í skemmtilegum körfubolta eins og aðrir. Það gekk bara vel og ég gleymdi hnénu í hita leiksins. Ég var samt eitthvað aumur í því þegar leiknum lauk en pældi ekki mikið í því. Morguninn eftir var hnéð bara alveg í rúst. Ég var hreinlega með staurfót (Stekkjastaur)

Á öðrum degi ákvað ég að fara til læknis enda ekki mikið gagn í mér í þessu ástandi og því eins gott að gera það frekar en ekki neitt. Læknirinn skoðaði mig eftir bestu getu og gaf að lokum þann úrskurð að þetta væri trúega sprunginn liðþófi í hnénu. Hann vildi senda mig í einhverskonar sneiðmyndatöku.

Það varð semsagt úr að ég fór í myndatökuna í dag. Ég mætti um kl. 12 í Domus Medca í Reykjavíkurhreppi. Fyrir utan var ógæfumaður sem sagðist búa í tjaldi í Laugardalnum og nú væri hann gaslaus og var að safna sér fyrir áfyllinu á kútinn. Ég mátti ekki vera að neinu röfli við manninn og lét hann því hafa klinkið sem ég hafði í vasanum til að losna. Þegar inn var komið var ég settur í grænan slopp og látinn stinga löppinni inn í dularfullt tæki sem leit út eins og þvottavél. Þannig mátti ég dúsa í heilan klukkutíma og hafði þau fyrirmæli að ég mætti ekki hreyfa mig. Til allrar hamingju fékk ég heyrnartól á hausinn þar sem ég gat hlustað á útvarpið annars hefði þetta orðið ansi erfitt.

Eins og yfirleitt er með allt þá tók þetta enda að lokum. Mér var sagt að draga löppina út úr þvottavélinni og að klæða mig aftur. "Við sendum svo lækninum niðurstöðurnar" sagði stúlkan sem rak mig úr tækinu.

Og þannig stendur núna. Ég veit semsagt ekki hvað gengur að hnénu og bíð bara spenntur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann G. Frímann

Var ekki Dómus Medíka farin á hausinn? Ég deili með þér körfuboltaiðkun (old boys) og slæmu vinstra hné. Reyndar var það hægra skorið fyrir fjórum árum þegar ég sleit neðri sinina í hnéskelina. Því segi ég nú: Svei mér þá ef ég er ekki verri í skárri löppinni! Batni þér hratt og örugglega!

Jóhann G. Frímann, 27.11.2008 kl. 21:32

2 identicon

a. velkominn í hóp hinna fötluðu

b. þetta heitir Háskóli Íslands

PMS (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 21:43

3 identicon

Almáttugur! Fatlaðir bræður - og annar nýkominn úr þvottavél; með þeytivindu?

Ja fyrst fötlunin hefur gripið um sig í ættinni, rétt í bili, er ég ekki með neitt hissuverk þótt Páll hafi ekki ritað neina heimsósómaspeki núna; né uppbyggilegar spekúlasjónir.

Annars var ég nú bara á leiðinni til Bjarna Harðar - og fyrst ég fann í upphafi bloggið hans í gegnum þessa síðu, hef ég haldið mig við þá leið. - Bið ykkur bræðrum bættrar heilsu og öndvegis aðhlynningar í hvívetna.

Helga Ágúystsdóttir

(Ekki má hér yrkja spé

á því slíku geri hlé,

Magnús hefur meiðst á hné

og meinsemd nokkur hrjáir Pjé.)

... jæja þá er að líta inn til Bjarna

Helga Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 27.11.2008 kl. 22:55

4 identicon

Samúðarkveðjur.

Sumir myndu að vísu segja að þegar gamlir gaurar iða sprikl í ungra manna anda svo líkaminn gefi sig þá sé grái fiðringurinn byrjaður fyrir alvöru ;)

Skúli (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 00:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband