Speglunaraðgerðin mín

Fyrir nokkrum árum fór ég í brjósklosaðgerð á Landspítalanum.  Ég mætti daginn fyrir aðgerð í viðtöl við lækninn, svæfingarlækninn og yfirhjúkrunarfræðinginn.  Öll spurðu þau mig margra spurninga og það sem mér þótti merkilegast var það að flestar spurningarnar voru þær sömu hjá öllum. Þó að mér þætti þetta skrítið þá dró ég þá ályktun að þetta væri til að fyrirbyggja misskilning og auka öryggi mitt í aðgerðinni. Ástæðan fyrir því að ég er að segja frá þessu er sú að ég fór í speglunaraðgerð á hné núna síðastliðinn fimmtudag. Aðgerðin var gerð á einkarekinni læknastofu. Mig langar að lýsa aðeins fyrir ykkur hvernig þetta gekk fyrir sig. Ég vil taka það skýrt fram að mér líkaði þetta ágætlega og held bara að aðgerðin hafi tekist vel.Fyrir rúmlega hálfum mánuði mætti ég í viðtal hjá lækninum. Þetta var hressilegur kall með grátt hár. Eftir stutt spjall lýsti hann því yfir að þetta hnjámein mitt myndi ekki jafna sig með tímanum og því þyrfti ég að mæta hjá honum í speglunaraðgerð. Hún myndi kosta 100.000 kr en ég fengi mikinn hluta endurgreiddan hjá tryggingunum. Hann sagði mér hvenær ég ætti að mæta og ég kvaddi og fór við svo búið. Þegar ég var hálfnaður heim var hringt af læknastofunni og kvartað yfir því að ég hefði gleymt að borga. Ég baðst afsökunar og gaf upp kortanúmerið mitt. Viðtalið kostaði semsagt 10.000- Ég bar því við að ég hefði haldið að þetta væri bara alltsaman einn pakki.Jæja, á fimmtudagsmorgun mætti ég kl 9.30 á neðstu hæð í læknahúsinu. Ég gaf mig fram við einhvern ritara sem sagði mér að fara úr skónum og fylgja sér. Við komum inn í herbergi sem var svona á stærð við frekar litla skólastofu. Rúm voru meðfra báðum hliðum og gangur á milli. Ég taldi ekki rúmin en ég giska svona eftirá að þau hafi verið 10. Tjöld skildu rúmin að. Við enda gangsins var hurð inná skurðstofuna. Það var töluverður asi á grænklæddum hjúkrunarfræðingum þarna inni og minnti soldið á “ER” eða bráðavaktina. Píp í græjum eða mónitórum sem eru trúlega til að gefa til kynna lífsmörk sjúklinganna, glumdu úr öllum áttum. Mér var uppálagt að fara úr öllum fötunum (nema nærbrókunum) og klæða mig í sjúkrahússkyrtu og hvíta sokka og fara uppí rúm. Ég er mjög hlýðinn og gerði þetta athugasemdalaust. Þegar ég var kominn undir sæng þá kom ein hjúkkan með Fréttablaðið handa mér. “Nú það verður einhver bið hér” hugsaði ég með mér. Ég var varla búinn að opna blaðið þegar læknirinn minn birtist. Hann heilsaði og ég bjó mig undir að fara að svara spurningum að hætti Landspítalafólksins. “Hvor fóturinn er það?” – Þessi – sagði ég og benti á hægra hrnéð. Þá dró læknirinn upp stóran svartan túss og teiknaði stóra svarta ör á hægra lærið á mér. Örin vísaði á hnéð. Við svo búið fór læknirinn. Ég bjóst nú til að kíkja í Fréttablaðið er það tók snöggt af því að nú birtist svæfingarlæknirinn. Hann bað mig að koma aðeins með sér. Ég fór frammúr og fylgdi honum. Hann spurði hvort ég væri ekki hraustur. “Jú jú” svaraði ég. “Ertu með eitthvað ofnæmi” Nei – sagði ég . Svo opnaði hann inn á skurðstofuna. Ég fékk hnút í magann þegar ég kom þar inn(ég var fastandi svo að hnútur er kannski betra en ekkert).  Gólfið var blautt og brúnir blettir og slettur út um allt. Nei þetta var ekki blóð heldur trúlega einhverskonar sótthreynsiefni og ég sá enga líkamsparta svona í fljótu bragði. Þetta var semsagt frekar ónotaleg tilfinning. Þetta minnti mig á slátúrhúsgólfið hér í Laugarási í gamladaga. (Áður en það var farið að rækta þar túrista og kannabis).“Leggstu hér uppá” sagði svæfingarlæknirinn og benti á XL straubretti á miðju gólfinu. Ég hlýddi enn og kom mér fyrir á brettinu. Því miður þá var ég svo upptekinn af gólfinu að ég tók lítið eftir öðru inn á skurðstofunni. Eftir að ég var kominn upp á straubrettið þá sá ég ekkert nema loftið. Læknirinn settin klemmu sem tengd var við svona “bíp…bíp..bíp.. tæki á vísifingur vinstrihandar og gerði nú nokkrar misheppnaðar tilraunir til að koma fyrir nál í hendinni á mér en það tókst að lokum.  Svo sagði hann mér að nú ætlaði hann sér að gefa mér sérstakt “gleðiefni” . Ég spurði hann hvort það væri það sem var kallað “kæruleysissprauta” Einmitt – svaraði læknirinn.  Ég sagði honum að ég hefði nú bara fengið einhverja pillu þegar ég var á Landspítalanum..  Haha…þeir eru nú svo sérstakir þarna á Hland-Skítalanum….  (Greinilega einhver húmor í einkageiranum) Og svo bara man ég ekki meir  ZZZZZZZZZZZZZZZZZÉg vaknaði eldhress í rúminu í skólastofunni eftir ca. 30 mín. Þá var ég með súrefnisslöngu í nefinu. Já ég var bara hress. Eins og vakna úthvíldur á sunnudagsmorgni. Grænklædd hjúkka kom og tók slönguna og flótlega spurði hún hvort ég vildi vatn. Ég þáði það. Eftir smá stund bauð hún mér kaffi og pólókex sem ég þáði líka. Læknirinn kom svo fljótlega og sagði mér að hann hefði lagað innri og ytri liðþófann og fjarlægt liðmús (ég fékk hana heim með mér í umslagi). Hann sagði að ég yrði aumur fyrst á eftir í hnénu og ég ætti að koma aftur til hans eftir hálfan mánuð. Grænklædd hjúkka kom svo til mín með blaðabunka. Reseft fyrir verkjalyf. Upplýsingar á A4 blaði um hvernig ég eigi að haga mér næstu daga og vikur og tvo reikninga uppá samtals um 100.000- Ég rétti henni kort sem ég taldi að myndi ráða við þetta og hún fór með það í posann. Þegar ég var búinn að kvitta sagði hún mér að ég mætti bara fara.Ég man ekki eftir að hafa notað kort í rúminu fyrr. Ég heyrði að nágranni minn í næsta eða þarnæsta rúmi lá í símanum að tala við þjónustufulltrúann sinn til að reyna að fá aukna yfirdráttarheimild til að ráða við sinn reikning.Og þar með var ég sloppinn. Ég held að þetta hafi bara tekist vel. Nú þegar þetta er skrifað (á mánudagskvöldi) er ég bara orðinn nokkuð góður og ég á að geta stundað íþróttir eftir 2 vikur.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Jóhannesdóttir

Frábært hvað þetta gekk vel. Og ekki allir sem hafa verið með mús í hnénu. Og fengið að eiga hana í kaupæti. Þú fékkst nokkuð fyrir peninginn. Það væri gaman að vita hvað þú færð mikið endurgreitt af þessu. Hvenær verðuru orðin nógu góður í körfuna?  ein sem verður illa tekin í bakaríið  en bara gaman af því.

Kristín Jóhannesdóttir, 11.3.2009 kl. 07:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband