Færsluflokkur: Bloggar

Sklálpanes og Langjökull í draumafæri og veðri

Ég fór í morgun með nokkrum félögum í meiriháttar skemmtilega fjórhjólaferð í Skálpanes og á Langjökul. Veðrið var stórkostlegt og bara allt eins og það á að vera.

Við fórum aðeins upp í Langjökul (ca. 900m hæð) en þar var færðin orðin erfið svo að við þvældumst eftir það um Skálpanes.

Það var ótrúlega lítil umferð á svæðinu sem gerði þetta enn stórkostlegra. Því allt þetta fallega snjóflæmi var ósnortið að mestu.

P4250055

Fleiri myndir hér

 


Ferð á Eyjafjallajökull

Í dag fór ég með Ingva á Spóastöðum á Eyjafjallajökul. Í upphafi ferðar vorum við samferða félögum úr Flugbjörgunarsveitinni á Hellu en fljótlega skildu leiðir og við Ingvi þvældumst um á eigin vegum mest allan tímann.

Það verður að segja eins og er að við komust ekki á toppinn (enda ku vera kalt á toppnum) Við þurftum frá að hverfa vegna þess að færðin fyrir fjórhjólin var orðin svo erfið að það gekk bara of hægt að komast áfram.

Þess í stað héldum við áleiðis til baka og fórum í allskonar króka og útúrdúra og skemmtum okkur geysi vel.

 

P4110021

kort

Leiðin sem við fórum (úr GPS tækinu)

Fleiri myndir hér


Speglunaraðgerðin mín

Fyrir nokkrum árum fór ég í brjósklosaðgerð á Landspítalanum.  Ég mætti daginn fyrir aðgerð í viðtöl við lækninn, svæfingarlækninn og yfirhjúkrunarfræðinginn.  Öll spurðu þau mig margra spurninga og það sem mér þótti merkilegast var það að flestar spurningarnar voru þær sömu hjá öllum. Þó að mér þætti þetta skrítið þá dró ég þá ályktun að þetta væri til að fyrirbyggja misskilning og auka öryggi mitt í aðgerðinni. Ástæðan fyrir því að ég er að segja frá þessu er sú að ég fór í speglunaraðgerð á hné núna síðastliðinn fimmtudag. Aðgerðin var gerð á einkarekinni læknastofu. Mig langar að lýsa aðeins fyrir ykkur hvernig þetta gekk fyrir sig. Ég vil taka það skýrt fram að mér líkaði þetta ágætlega og held bara að aðgerðin hafi tekist vel.Fyrir rúmlega hálfum mánuði mætti ég í viðtal hjá lækninum. Þetta var hressilegur kall með grátt hár. Eftir stutt spjall lýsti hann því yfir að þetta hnjámein mitt myndi ekki jafna sig með tímanum og því þyrfti ég að mæta hjá honum í speglunaraðgerð. Hún myndi kosta 100.000 kr en ég fengi mikinn hluta endurgreiddan hjá tryggingunum. Hann sagði mér hvenær ég ætti að mæta og ég kvaddi og fór við svo búið. Þegar ég var hálfnaður heim var hringt af læknastofunni og kvartað yfir því að ég hefði gleymt að borga. Ég baðst afsökunar og gaf upp kortanúmerið mitt. Viðtalið kostaði semsagt 10.000- Ég bar því við að ég hefði haldið að þetta væri bara alltsaman einn pakki.Jæja, á fimmtudagsmorgun mætti ég kl 9.30 á neðstu hæð í læknahúsinu. Ég gaf mig fram við einhvern ritara sem sagði mér að fara úr skónum og fylgja sér. Við komum inn í herbergi sem var svona á stærð við frekar litla skólastofu. Rúm voru meðfra báðum hliðum og gangur á milli. Ég taldi ekki rúmin en ég giska svona eftirá að þau hafi verið 10. Tjöld skildu rúmin að. Við enda gangsins var hurð inná skurðstofuna. Það var töluverður asi á grænklæddum hjúkrunarfræðingum þarna inni og minnti soldið á “ER” eða bráðavaktina. Píp í græjum eða mónitórum sem eru trúlega til að gefa til kynna lífsmörk sjúklinganna, glumdu úr öllum áttum. Mér var uppálagt að fara úr öllum fötunum (nema nærbrókunum) og klæða mig í sjúkrahússkyrtu og hvíta sokka og fara uppí rúm. Ég er mjög hlýðinn og gerði þetta athugasemdalaust. Þegar ég var kominn undir sæng þá kom ein hjúkkan með Fréttablaðið handa mér. “Nú það verður einhver bið hér” hugsaði ég með mér. Ég var varla búinn að opna blaðið þegar læknirinn minn birtist. Hann heilsaði og ég bjó mig undir að fara að svara spurningum að hætti Landspítalafólksins. “Hvor fóturinn er það?” – Þessi – sagði ég og benti á hægra hrnéð. Þá dró læknirinn upp stóran svartan túss og teiknaði stóra svarta ör á hægra lærið á mér. Örin vísaði á hnéð. Við svo búið fór læknirinn. Ég bjóst nú til að kíkja í Fréttablaðið er það tók snöggt af því að nú birtist svæfingarlæknirinn. Hann bað mig að koma aðeins með sér. Ég fór frammúr og fylgdi honum. Hann spurði hvort ég væri ekki hraustur. “Jú jú” svaraði ég. “Ertu með eitthvað ofnæmi” Nei – sagði ég . Svo opnaði hann inn á skurðstofuna. Ég fékk hnút í magann þegar ég kom þar inn(ég var fastandi svo að hnútur er kannski betra en ekkert).  Gólfið var blautt og brúnir blettir og slettur út um allt. Nei þetta var ekki blóð heldur trúlega einhverskonar sótthreynsiefni og ég sá enga líkamsparta svona í fljótu bragði. Þetta var semsagt frekar ónotaleg tilfinning. Þetta minnti mig á slátúrhúsgólfið hér í Laugarási í gamladaga. (Áður en það var farið að rækta þar túrista og kannabis).“Leggstu hér uppá” sagði svæfingarlæknirinn og benti á XL straubretti á miðju gólfinu. Ég hlýddi enn og kom mér fyrir á brettinu. Því miður þá var ég svo upptekinn af gólfinu að ég tók lítið eftir öðru inn á skurðstofunni. Eftir að ég var kominn upp á straubrettið þá sá ég ekkert nema loftið. Læknirinn settin klemmu sem tengd var við svona “bíp…bíp..bíp.. tæki á vísifingur vinstrihandar og gerði nú nokkrar misheppnaðar tilraunir til að koma fyrir nál í hendinni á mér en það tókst að lokum.  Svo sagði hann mér að nú ætlaði hann sér að gefa mér sérstakt “gleðiefni” . Ég spurði hann hvort það væri það sem var kallað “kæruleysissprauta” Einmitt – svaraði læknirinn.  Ég sagði honum að ég hefði nú bara fengið einhverja pillu þegar ég var á Landspítalanum..  Haha…þeir eru nú svo sérstakir þarna á Hland-Skítalanum….  (Greinilega einhver húmor í einkageiranum) Og svo bara man ég ekki meir  ZZZZZZZZZZZZZZZZZÉg vaknaði eldhress í rúminu í skólastofunni eftir ca. 30 mín. Þá var ég með súrefnisslöngu í nefinu. Já ég var bara hress. Eins og vakna úthvíldur á sunnudagsmorgni. Grænklædd hjúkka kom og tók slönguna og flótlega spurði hún hvort ég vildi vatn. Ég þáði það. Eftir smá stund bauð hún mér kaffi og pólókex sem ég þáði líka. Læknirinn kom svo fljótlega og sagði mér að hann hefði lagað innri og ytri liðþófann og fjarlægt liðmús (ég fékk hana heim með mér í umslagi). Hann sagði að ég yrði aumur fyrst á eftir í hnénu og ég ætti að koma aftur til hans eftir hálfan mánuð. Grænklædd hjúkka kom svo til mín með blaðabunka. Reseft fyrir verkjalyf. Upplýsingar á A4 blaði um hvernig ég eigi að haga mér næstu daga og vikur og tvo reikninga uppá samtals um 100.000- Ég rétti henni kort sem ég taldi að myndi ráða við þetta og hún fór með það í posann. Þegar ég var búinn að kvitta sagði hún mér að ég mætti bara fara.Ég man ekki eftir að hafa notað kort í rúminu fyrr. Ég heyrði að nágranni minn í næsta eða þarnæsta rúmi lá í símanum að tala við þjónustufulltrúann sinn til að reyna að fá aukna yfirdráttarheimild til að ráða við sinn reikning.Og þar með var ég sloppinn. Ég held að þetta hafi bara tekist vel. Nú þegar þetta er skrifað (á mánudagskvöldi) er ég bara orðinn nokkuð góður og ég á að geta stundað íþróttir eftir 2 vikur.

Betra að taka skömmunum en höfnuninni.

Til að þetta blogg mitt leggist ekki endanlega af þá ákvað ég að setja inn smá klausu.

Eins og er sit ég inni í stofu á föstudagsmorgni meðan Sigurlaug ryksugar allt í kringum mig. Ég fór í speglunaraðgerð á hnénu mínu í gær og er enn ekki fær um að gera neitt ærlegt. Mér finnst strax að þetta sé að skána svo að ég er bjartsýnn á að vera  vinnufær í næstu viku.

Fyrirsögnin hér tengist tvennu. Ég kíkti inn í veiðibúð í gær og skoðaði riffil sem Mundi mágur benti mér á. Þetta er flottur gripur sem kostar líka sitt. Ég kvaddi sölumanninn með þeim orðum að nú þyrfti ég bara að semja við konuna um að fá að kaupa gripinn. "Það getur verið betra að taka skömmunum en höfnuninni" svaraði hann. Það getur verið sannleikur í því. Að minnsta kosti ákvað Skúli minn að láta á það reyna. Hann kom heim með PS2 tölvu í gær sem hann keypti af skólabróður sínum. Í algjöru leyfisleysi. Trúlega hefur hann haft svipað í huga og byssusölumaðurinn. 

 Annars hefur þetta bloggleysi mitt stafað að miklu leyti af því að facebook hefur yfirtekið í bili. Að vísu er bara hún Helga mín sem hefur kvartað enda eru trúlega ekki margir aðrir sem kíkja á þetta. Annars væri gaman að fá Helgu inn á facebook. Ef þú lætur reyna á það Helga þá skal ég leiðbeina þér :)

 


Þetta tókst - refurinn var minkur og mús í kaupbæti

Jæja, þolinmæði þrautir vinnur allar. Eins og fram hefur komið þá er ég búinn að reyna að taka myndir af villdýrum út í náttúrunni undanfarið. Til þess nota ég góða græju sem heitir útlensku "Trail Camera" En hún tekur myndir þegar hún skynjar hreyfingu.
Ég notaði sviðakjamma sem ég festi við hæl sem agn og stillti þessu upp á laugardaginn út við Puttapoll. Þar taldi ég mig hafa fundið refagreni (annað kom á daginn)
Á sunnudaginn fór ég að vitja um en sá engin ummerki. Ég kíkti aftur á þetta í gær og það var alveg eins. Ég fór því aftur núna síðdegis með það í huga að taka græjuna og færa hana á einhvern vænlegri stað.
Það var ánægjulegt í meira lagi þegar ég sá að það hafð imikið gengið á við grenið. Aðeins bert kjálkabeinið var eftir fast við hælinn sem ég hafði rekið niður.
Ég gat varla beðið með að komast heim með græjuna til að skoða hvað hefði gengið á. Það er skemmst frá því að segja að ég varð ekki fyrir vonbrigðum í þetta skipti. Meira en 100 myndir í græjunni. Mús var með aðalhlutverkið á fyrstu myndunum. En kl. 19.30 í gærkvöldi skeði eitthvað verulegt. Kjamminn var allt í einu ekki á sama stað. Á næstu myndum kom í ljós minkur. Það er engu líkara en minkurinn hafi smá saman vanist öllu þessu flassljósi sem græjan skellti á hann. Ekkert var gefið eftir og hreinlega allt étið upp í nótt.
Að vísu var veðrir allskonar meðan á myndatökunni stóð þannig að stundum er snjór eða bleyta á linsunni. Þannig að myndirnar eru sumar í móðu en það finnst mér aukaatriði.
Mikið ósköp finnst mér þetta annars skemmtilegar og spennandi "veiðar"
Meira af myndumá FaceBook
Minkur1

Greni

Fór út á Bakka í dag með það í huga að setja upp myndatöku á villidýri.

Ég keypti mér sviðakjamma í Bónus og festi hann við hæl með vír. Þetta skyldi vera agnið til að laða að villidýrið til myndatöku með græjunni góðu.

Þegar ég kom á staðinn sem ég hafði hugsað mér sem hentugan til uppsetningar þá tók ég eftir slóð sem ég rakti smá spotta og endaði ofan í holu. Skítur við slóðina gaf mér til kynna að hér væri ekki um minnk að ræða heldur ref. Ég setti því græjurnar upp við opið á greninu eins og myndin sýnir. Nú bíð ég bara spenntur eftir því að "vitja um" á morgun seinnipartinn. SPENNANDI!

P1240083


Villdýramyndataka -taka tvö-

Í gær ákvað ég að láta verða af því að gera aðra tilraun með myndavélinni minni góðu. Ég fór með græjuna og statíf út að Puttapolli og í  þetta skipti var ég með bein úr lambalærinu sem var hesthúsað hér um helgina til að nota sem beitu. Ég stillti á videó upptöku (að vísu með hálfum huga en það gæti orðið svo flott).

Núna í kvöld fór ég að vitja um. Ég labbaði út að Puttapolli og Hundarnir komu með. Mér til mikillar ánægju sá ég starx að það hafði verið mikið um að vera fyrir framan vélina. Beinið horfið. Að vísu hafði snjóað yfir förin á svæðinu en þau sáust samt.

Hundarnir urðu æstir og fundu greinilega lykt af einhverju kvikindi á svæðinu. Þeir skoðuðu hverja gjótu og glufu á svæðinu með sperrt eyru.

 Ég sá það strax á skjánum á vélinni að það voru margir atburðir skráðir og það var búið að taka 11 videóbúta.

Ég fór heim fullur af tilhlökkun til að skoða videóin.(Það verð ég að gera í tölvunni). En........ það fór eins og ég hafði óttast. Minkurinn ..eða hvaða kvikindi sem þetta var, hafði komið um miðja nótt. Nánar kl. 00.19 og það tók hann 10 mín. að losa beinið og draga það með sér í burtu. Síðasti atburður var skráður kl. 00.29.

Því miður eru engin innrauð ljós á græjunni minni góðu og þess vegna sér hún bara myrkrið þegar maður tekur videó. Þannig að ég á fullt af myrkri á videói. Það sést því miður ekkert nema myrkur á myndunum.

Það er því niðurstaðan og lærdómurinn af þessu að næst verð ég að stilla á venjulega ljósmynd og þá á græjan að taka mynd með flassi ef það er of dimmt. Þetta hefur að vísu þann ókost að flassið fælir viðkomandi kvikindi í burtu en það gefur að minnsta kosti fækifæri á einni mynd.


Jólunum öllum lokið

Nú fer lífið að taka á sig hversdagsblæ að nýju. Mikið er ég feginn. Joyful

Jólakötturinn er hættur að sjást hjá okkur. Búið að slökkva jólaljósin og taka niður skrautið. Áðan dröslaði ég skraufþurru lólatrénu út. Það er allt að komast í lag aftur.

 Af lampaþjófum

Það er eitt sem er farið að hrella okkur garðyrkjubændur verulega í seinni tíð. Það eru helv. lampaþjófarnir Bandit. Nú síðastliðna nótt létu þeir enn til skarar skríða og stálu lömpum frá Ómari. Þetta hyski er búið að stela meira en 100 lömpum hér á svæðinu síðan fyrir jól. 100 lampar kosta núna ca. 3,2 milljónir

Ég hef sloppið hingað til. Ég þakka það helst hundunum. Þeir hafa mikinn fælingarmátt. Enda kemst enginn hingað heim nema þeir láti í sér heyra. Þrátt fyrir það þá fór ég á eBay og pantaði ég mér heilmikið þjófavarnarkerfi með allskonar skynjurum og útbúnaði frá Kína. Það er alveg að koma í hús. Nú skal þjófahyskið sko fá það óþvegið. Devil


Tilburðir til að mynda villidýr

Sælt gott fólk.

Í framhaldi af frekar góðum árangri við að  taka myndir af jólakettinum þá ákvað ég að setja þessa áráttu á örlítið hærra plan. Nú skyldi taka mynd af alvöru villdýrum. Þá var ég reyndar með MINK í huga.

Eftir að hafa hugsað um þetta fram og aftur þá ákvað ég að leggja í hann. Ég spurði frúna hvort hún ætti eitthvað kjöt í kistunni sem líklegt væri að við myndum aldrei éta. Hún þvertók fyrir það. Svo að nú var úr vöndu að ráða. Mér datt í hug að fara bara af stað með haglarann og skjóta einhvern fugl en hætti við það snarlega því að það er lítið um almennilega fugla á þessum árstíma. Þá datt mér í hug að kíkja í frystiskápinn hans pabba. Þar kom í ljós mikið magn af kæfu sem einhver góðhjörtuð kona hafði borið í hann reglulega en einhverra hluta vegna þá var kæfan ekki étin heldur safnaðist bara upp í frystinum. Sá gamli veitti mér fúslega leyfi til að taka eina dollu af kæfu. Honum þótti þetta bara spennandi verkefni sem ég var að leggja í.

Ég smíðaði sérstakt statíf til að halda myndavélinni bushnell_11-9830og skellti síðan myndavélinni statífinu og kæfunni í kassann á fjórhjólin og fór út á Bakka.

Eftir að hafa þrætt árbakkann í leit að heppilegum stað þá rakst ég á dauðan lax sem maraði í hálfu kafi. Ég tók hann með því hann hlýtur að vera gott agn fyrir villidýr.

Loks fann ég stað sem leit út fyrir að vera heppilegur til að setja upp "myndverið". Við smá poll aðeins frá árbakkanum. Því ég þorði ekki að hafa þetta of nálægt ánni ef það skyldi hækka í henni.

Ég vandaði mig mikið við að koma öllu fyrir.lax2 Því ég ætlaði að ná góðri mynd af grimma minknum.

Jæja. Í morgun var ég farinn að hafa áhyggjur vegna þess að það er búið að rigna svo mikið. Ég fór því eftir hádegið til að kíkja á aðstæður. Marín kom með mér á fjórhjólinu mér til halds og trausts.

Þegar við komum út á bakka þá leist mér ekki á blikuna. Það hafði hækkað mikið í ánni. Miklu meira en ég bjóst við.

Það var töluvert mál að komast út á bakkann þar sem græjan var þrátt fyrir fjórhjóladrifið. En við Marín komumst þangað með þrjóskunni.

Nú tók verra við. Ég sá græjuna hvergi. Ég var farinn að halda að ég væri á vitlausum stað en varð svo að sætta mig við þá staðreynd að myndavélin var á kafi. Já alveg á bóla kafi. Það hafði hækkað ca. 70 sentimetra í ánni síðan í gær og myndverið allt horfið. lax3Okkur tókst að ná myndavélinni upp og hún var að sjálfsögðu full af vatni. Þó að hún sé gerð til að vera úti í allskonar veðrum þá er þetta nú trúlega of mikið.

Þegar við komum heim þá reyf ég vélina í tætlur og setti hitablásara við hana og þurrkaði. Sem betur fer virðist hún ENN VIRKA. Þannig að ég get kannski reynt aftur að taka mynd af minknum grimma.

  Ef þið rýnið í þessa mynd sjáið þið rautt punkatstrik sem sýnir ca. vatnshæðina í dag!

Og að lokum er mynd sem græjan tók þegar ég var búinn að stilla henni upp. Það hefði nú verið flott að ná mynd af mink þarna! En þannig fór þetta nú! Gengur bara betur næst.

lax1

 


Jólakötturinn -taka tvö-

Gleðilegt ár gott fólk og takk fyrir allt gamalt og gott 

Jólakötturinn heldur áfram að vera hér öðru hvoru okkur til skemmtunar.

Með því að breyta aðeins stillingum og uppsetningu á sjálfvirku myndavélinni sem áður var getið, þá tókst núna í nótt að ná smá myndbandsbútum af kettinum. Við höfum reglulega sett eitthvað góðgæti hér útá stétt og kisa veit nú orðið að það er að minnsta kosti einn staður þar sem von er um æti. Í gærkvöldi fékk sú bröndótta smá sneiðar af grillaðri gæsabringu og rjómabland með. Þetta er að vísu fæða sem myndi frekar sæma konunglegum köttum en ekki einhverjum villiketti uppá íslandi. En það var nú einusinni gamlárskvöld. Kisa kom og gæddi sér á þessu rétt fyrir miðnættið. Það var mjög athyglisvert að hún kippti sér ekkert upp við sprengingar sem glumdu um allt hverfið.

Videóin sem eru hér fyrir neðan eru tekin um kl. 2.30 í nótt. En samkvæmt græjunni þá var kisa á ferðinni aftur um kl. 3, kl.5 og síðast kl. 9.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband